Baldinn

UPL.

Upplýsingar

Baldinn er einingarleturgerð (e. modular typeface) sem má breyta og nota að vild (e. open source). Letrið er hannað með hliðsjón af stærðarhlutföllum málningarrúllu, það er að segja stærð rúðunetsins sem letrið er teiknað inn í miðast við meðalstærð á málningarrúllu. Slík hönnun gerir það að verkum að tiltölulega einfalt er fyrir fólk að skissa upp og mála letrið á veggi án þess að styðjast við annað en rúlluna sjálfa.

Hér má nálgast frekari upplýsingar um verkferla.

Orðið „baldinn“ er gamalt íslenskt lýsingarorð yfir þann sem talin er óhlýðinn, villtur og kröftugur. Nafn letursins stendur því fyrir hvatann á bak við aðgerðir eins og borgaralega óhlýðni og kraftinn sem felst í því að koma skilaboðum fyrir í almenningsrými.

Letrið var fyrst notað í gjörningi sem ætlað var að vekja athygli á undirskriftasöfnun til stuðnings nýju stjórnarskránni sem Samtök kvenna um Nýja stjórnarskrá stóðu fyrir. Spurningin: „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ var máluð í þessu letri á rúmlega mannhæðarháan vegg við hliðina á Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Segja má að gjörningurinn hafi heppnaðist með ágætum en yfirvöld brugðust hratt við og létu þrífa vegginn við fyrsta tækifæri. Í kjölfarið varð mikil fjölmiðlaumfjöllun um málið sem vakti jafnframt sterk viðbrögð almennings og undirskriftasöfnunin tók dágóðan kipp. Gjörningurinn var svo endurtekinn daginn eftir, á öðrum vegg stuttu frá, og þar hafa skilaboðin fengið að standa síðan.

Áhugavert er að staldra við og skoða viðbrögð almennings. Vitaskuld hafði stuðningur við málstaðinn mikil áhrif. Skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt að yfir 60% landsmanna er fylgjandi Nýju stjórnarskránni. Hins vegar er ljóst að verkið fékk mun betri viðtökur en „hefðbundið“ veggjakrot með sömu skilaboðum. Því má ætla að letrið sjálft tali sterkt til fólks og sé einkar hentugt til að koma skilaboðum á framfæri í almenningsrými.

Vegna þeirra jákvæðu viðbragða og mikilli samstöðu sem gjörningnum var sýndur kviknaði sú hugmynd að færa þeim sem vilja leggja málstaðnum lið með beinum aðgerðum tæki í hendurnar. Fyrir mörgum kann að hljóma einfalt að mála letur á vegg. Það getur þó verið býsna flókið að gera það vel og mynda heildstæða setningu. Það varð því úr að letrið Baldinn var teiknað upp og er gefið út á gagnvirkri heimasíðu þar sem hægt er að fá leiðbeiningar um hvernig best er að mála skilaboð á veggi.

Verkefninu er ætlað að opna enn frekar á umræðuna um Nýju stjórnarskrána en jafnframt að hvetja fólk til að leggja sitt af mörkum. Nýja stjórnarskráin er stórt lýðræðismál sem varðar alla íbúa landsins. Umræðunni verður að halda á lofti svo henni sé ekki sópað undir teppi eða háþrýstiþvegin burt. Því hvar er betra að ræða stórt mál sem þetta en í almenningsrýminu?

Ábending um vegg

Ef þú ert með vegg í þinni umsjá sem þú gætir hugsað þér að láta mála, eða villt deila með okkur hugmynd að vegg eða skilaboðum, ekki hika við að hafa samband.

Hvernig nota
skal letrið

1

Til þess að letrið verði sem hornréttast er best að finna sér línur í veggnum sem maður telur lóð- og láréttar. Þessar línur geta verið endar veggjarins á alla kanta en oft er líka að finna aðrar línur svo sem steypu sem hægt er að notast við ef kantarnir eru ekki beinir. Út frá þessum línum miðar maður svo við þegar hafist er handa.

2

Letrið er hannað sérstaklega út frá málningarrúllu og er notast við breidd rúllunnar til þess að reikna út hnit letursins. Ef við gefum okkur að fyrsta lína letursins eigi að vera tveimur rúllubreiddum frá vinstri kant veggjarins ber maður málningarrúllu tvisvar sinnum í röð upp að veggnum frá vinstri kannt og merkir svo fyrir hnitinu. Gott er að gera þetta í toppi og botni letursins á veggnum og draga svo línuna á milli hnitanna.

3

Til að fá línuna sem skarpasta er gott að nota kantana á málningarrúllunni til þess að draga útlínur letursins en rúlluna sjálfa svo til að fylla inn í flötinn.

4

Til að reikna þverlínurnar er rúllan notuð á sama hátt og frá vinstri til hægri nema frá toppi eða botni veggjarins, allt eftir því hvað hentar.

5

Þegar dregin er skálína í letrinu er svipaðri aðferð beitt. Munurinn er sá að best er að finna út öll horn letursins og draga svo línuna á milli þeirra.

6

Stundum hitta línur letursins ekki beint inn í rúðunetið og áætla þarf út frá því hvar þessar línur eiga að vera. Þetta á meðal annars við um I-ið í þynnstu BALDINN útgáfunni. Í því letri er I-ið fjórar rúllur breiddir og þverstrikið í miðjunni. Gott er því að byrja á því að merkja fjórar rúllur breiddir í toppi og botni letursins. Málningarrúllan er svo staðsett beint á milli annarrar og þriðju merkingarinnar og dregin lóðrétt niður á sama stað í botni letursins. Þetta á líka við í mörgum þverlínum þykkustu útgáfunnar.

Hvernig reikna
skal skugga

Í þessum leiðbeiningum er gengið út frá því að skugginn sé ein rúllubreidd til vinstri og ein rúllubreidd niður frá letrinu. Þrátt fyrir að vera bara ein rúllu breidd er gott að hafa minni rúllu eða pensil til þess að hjálpa sér með skuggann.

Þegar finna á út hvar skugginn er reiknaður er gott að horfa í öll horn. Ef fyrirséð sé að línan lendi inn í letrinu á hún ekki við.

Gott er að hafa í huga að í letrinu er ekkert heilagt. Mikilvægt er að beita hugmyndafluginu og eigin nálgun til að ná persónulegri útkomu.

Baldinn

cm
cm
Litur á vegg
25cm rúlla
25x25 rúðunet
10cm rúlla
10x10 rúðunet
5cm rúlla
5x5 rúðunet
Þunnt letur
Venjulegt letur
Feitletrað letur
Skuggi á letur
Litur á letri
Litur á skugga
Um Baldinn
og leiðbeiningar
Sækja letur
Prenta vegg
Því miður virkar Baldinn.com ekki á farsíma.
Nauðsynlegt er að hafa stærri skjá til að geta sett upp vegg.